Samtök um skaðaminnkun og mannréttindi fólks sem notar vímuefni


TILGANGUR MATTHILDAR

Að auka þekkingu og vinna að framgangi skaðaminnkandi inngripa og úrræða á Íslandi, þar sem fagleg þjónusta og gagnreynd þekking er höfð að leiðarljósi.

Að standa vörð um mannréttindi fólks sem notar vímuefni, glímir við vímuefnavanda og/eða heimilisleysi.

Að stuðla að samstarfi við skaðaminnkunarsamtök og skaðaminnkandi úrræði á norðurlöndum og á alþjóðavísu.


MATTHILDUR JÓNSDÓTTIR KELLEY

Stofnaðilar vilja sérstaklega heiðra Matthildi Jónsdóttur Kelley og nefndu því samtökin í höfuðið á henni. Matthildur hefur verið öflugur málsvari skaðaminnkunar um áratugabil og baráttukona fyrir réttindum fólks sem notar vímuefni. Matthildur flutti frá Íslandi til Chicago borgar um tvítugt og á persónulega reynslu af því að hafa glímt þar við þungan vímuefnavanda og heimilisleysi.

Matthildur starfaði í 35 ár í Chicago borg í brautryðjandi vettvangsstarfi og HIV forvörnum, aðallega með fólki sem notar vímuefni í æð. Hún hefur jafnframt séð um þjálfun á starfsfólki í öðrum vettvangsteymum og m.a. kennt skaðaminnkun í Indónesíu á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Matthildur býr yfir einstakri þekkingu, reynslu og visku og það er sannkallaður heiður að fá að nefna skaðaminnkunar samtök á Íslandi í höfuðið á þessari mögnuðu konu.

Matthildur var heiðursgestur á fyrstu ráðstefnu Matthildarsamtakanna, sem haldin var þann 7. september 2022 og fjallaði um skaðaminnkun á Íslandi. Þar var Matthildur jafnframt heiðruð fyrir störf sín í þágu skaðaminnkunnar.

Frá ráðstefnu samtakanna haustið 2022. Stofnmeðlimir ásamt Matthildi Jónsdóttur Kelley.


STOFNMEÐLIMIR

Elín Guðný Gunnarsdóttir, MPM

Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður

Svala Jóhannesdóttir,
sérfræðingur í skaðaminnkun