Stjórnarmeðlimir Matthildar
2024 — 2025

Albert Björn Lúðvígsson,
Gjaldkeri (hann/he)

Albert er lögmaður og starfar í dag hjá CPLS lögmannsstofu þar sem mannréttindi og réttindi útlendinga eru stór partur af hans starfi.

Albert kynntist skaðaminnkun hjá Rauða krossinum á Íslandi og hefur hann verið sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði í yfir 6 ár. Hann hefur því kynnst vel þeirri jaðarsetningu sem fólk sem notar vímuefni verður fyrir á Íslandi, bæði þegar það leitar sér aðstoðar hjá hinu opinbera sem og í samfélaginu almennt.

Fyrir Albert snýst skaðaminnkun um virðingu, virðingu fyrir eðlislægum og meðfæddum réttindum hverrar manneskju. Fólk sem er jaðarsett hefur sjaldnast rödd, það er mikilvægt að við gefum þeim einstaklingum sem eiga erfitt uppdráttar í samfélaginu tækifærið til að láta í sér heyra.

Albert kom inn í stjórn samtakanna í júní 2025 sem gjaldkeri.


Elín Guðný Gunnarsdóttir,
MPM (hún/she)

Elín er með BA í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og Master of Project Management (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík.

Elín býr yfir mikilli þekkingu og reynslu í verkefnastjórnun, gæðamálum og fjármálum. Lokaverkefni Elínar úr MPM náminu var „Er samfélagslegur ávinningur fyrir íslenskt samfélag af Frú Ragnheiði? Kostnaðargreining með þjóðhagslegan ábata í huga."

Elín hefur góða þekkingu og reynslu af skaðaminnkun. Hún hefur t.a.m. starfað með fólki sem glímir við vímuefnavanda, m.a. í athvarfi fyrir heimilislausar konur, og verið sjálfboðaliði í nálaskiptiþjónustu. Þá stýrði Elín starfi sjálfboðaliða í athvarfi fyrir heimilislausar konur á árunum 2013–2016. Elín hefur lokið fjölda námskeiða aðallega á sviði skaðaminnkunar og málefnum tengdum geðrænum áskorunum, samskiptum og stjórnun.

Fyrir Elínu er skaðaminnkun virkilega mikilvæg, fyrst og fremst fyrir fólk sem notar vímuefni þar sem lýðheilsa, mannréttindi og notendasamráð eru höfð að leiðarljósi. 

Elín er ein af stofnaðilum samtakanna og er varaformaður.


Kristjana Stefánsdóttir,
Kynningarfulltrúi (hún/she)

Kristjana er með BA gráðu í miðlun og almannatengslum og MCM gráðu í áfallastjórnun.

Kristjana hefur um langt skeið aðhyllst hugmyndafræði skaðaminnkunar en í kjölfar andláts bróður hennar vildi hún leggja sitt af mörkum og ganga til liðs við þau öfl sem starfrækja úrræði byggð á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Sem aðstandandi einstaklings með vímuefnavanda um árabil er það hennar von að skaðaminnkun verði varanlegur hluti af félags- og heilbrigðiskerfi okkar. Þjónustan sem félagasamtök á borð við Matthildarsamtökin veita draga úr skaða, harmi og dauðsföllum af völdum vímuefnanotkunar og verður þjónustan að hennar mati að vera óháð styrkveitingum hins opinbera. Hennar markmið er að dreifa þekkingu og auka meðvitund um mikilvægi skaðaminnkandi úrræða og þjónustu. Kristjana vill sjá breytingar á vímuefnalöggjöf og refsistefnu stjórnvalda.

Fyrir Kristjönu er skaðaminnkun lífsbjargandi og telur það vera skyldu okkar allra að mæta einstaklingum sem nota vímuefni með mannúð, skilningi, virðingu og stuðningi á þeirra forsendum.

Kristjana kom inn í stjórn samtakanna í júní 2025 sem kynningarfulltrúi.


Kristjana Sigríður Árnadóttir,
Stjórnarmeðlimur (hún/she)

Kristjana er með BA í félagsfræði og diplómat í afbrotafræði á meistarastigi við Háskóla Íslands. Í dag stundar hún nám í félagsráðgjöf við HÍ.

Kristjana starfar sem sjálfboðaliði í Matthildarteyminu sem veitir lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu, heilbrigðisaðstoð og sálrænan stuðning til einstaklinga í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi og er rekið af Matthildarsamtökunum. Kristjana hefur sótt námskeið í tengslum við þau störf, meðal annars verklega kennslu í skyndihjálp, áfallamiðaða nálgun, skaðaminnkandi inngrip og notkun naloxone.

Fyrir Kristjönu snýst skaðaminnkun um að tryggja öryggi og heilsu einstaklinga sem nota vímuefni eða glíma við vímuefnavanda. Kristjana vill sjá breytingar innan heilbrigðiskerfisins til þess að stuðla að mannréttindum fyrir fólk og telur hún skaðaminnkandi hugmyndafræði eiga þar vel við.

Kristjana kom inn í stjórn samtakanna haustið 2024.


Selma Björk Hauksdóttir, Stjórnarmeðlimur (hún/she)

Selma Björk er félagsráðgjafi og lauk mastersnámi til starfsréttinda árið 2014. Hún lauk BA í félagsráðgjöf árið 2012.

Selma Björk sinnir í dag klínískri kennslu í Félagsráðgjafadeild HÍ en starfaði áður í barnavernd. Selma Björk starfaði sem sjálfboðaliði og starfskona í Konukoti árin 2011-2014 á vegum Rauða Kross Íslands og samhliða þeim störfum sótti hún á námskeið sem snúa að skaðaminnkandi nálgun og vímuefnatengdum málum. MA verkefni Selmu Bjarkar (2013) sneri að málefnum fólks sem nýtir næturathvörf og byggði á hugmyndafræði um húsnæði fyrst og skaðaminnkun. 

Fyrir Selmu er skaðaminnkun mannúðleg nálgun sem dregur úr skaða einstaklinga og samfélaga, þjónar því öllum. Skaðaminnkun er ein meginstoð í hugmyndafræði um húsnæði fyrst (e. Housing first) sem snýr að því að veita fólki húsnæði, og stuðning, eftir þörfum einstaklingsins. 

Selma kom inn í stjórn samtakanna haustið 2024.


Svala Jóhannesdóttir,
Formaður (hún/she)

Svala hefur 17 ára reynslu af því að starfa með fólki sem glímir við vímuefnavanda og fjölþættan vanda. Hún hefur starfað fyrir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauða krossinn, þar hefur hún m.a. stýrt skaðaminnkandi úrræðum á borð við Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu, neyðarskýlum fyrir heimilislausar konur og íbúðarkjörnum fyrir fólk með virkan vímuefnavanda. 

Svala hefur þróað og innleitt skaðaminnkandi inngrip í fjölda úrræða og kom að innleiðingu skaðaminnkunar í málaflokki heimilislausra árið 2021 hjá Reykjavíkurborg. Svala heldur námskeið og kemur að stundakennslu um málefni tengd vímuefnanotkun fyrir háskólasamfélagið, stofnanir og sveitarfélög. 

Svala er með BA í félagsfræði með áherslu á kynjafræði og jafnrétti og hefur lokið framhaldsmenntun á meistarastigi í fjölskyldumeðferð og handleiðslufræðum. Hún er jafnframt með vottun í samþættri skaðaminnkandi sálmeðferð frá Optimal Living Psychological Services í Bandaríkjunum.

Svala hefur skoðað fjölmörg skaðaminnkandi úrræði erlendis og er tengiliður (e. Focal Point) Íslands, fyrir hönd Matthildarsamtakanna, hjá Correlation European Harm Reduction Network.

Fyrir Svölu er skaðaminnkun viðurkennd aðferðafræði innan fíknifræða sem leggur áherslu á lýðheilsu og mannréttindi fólks sem notar vímuefni. Samstarf við notendur er undirstaða alls starfs í skaðaminnkun.

Svala er ein af stofnaðilum samtakanna og er jafnframt verkefnastjóri Reykur.


Sverrir Hjálmarsson
Fjáröflunarfulltrúi (hann/he)

Sverrir Hjálmarsson – stjórnarmaður Sverrir er með BSc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc í vinnusálfræði og stjórnun frá Aston Business School í Bretlandi. Hann býr að áratuga reynslu af stjórnunar- og ráðgjafastörfum. Sverrir hefur gegnt lykilhlutverkum sem mannauðsstjóri, gæðastjóri og yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar og hefur leitt stefnumótun, umbótaverkefni og framþróun fyrirtækja.

Í stjórn Matthildar leiðir Sverrir fjáröflunarhluta starfseminnar og leggur sitt af mörkum til að efla fjárhagslegt sjálfstæði og framtíðarárangur samtakanna. Skaðaminnkun er Sverri hjartans mál því hann telur mikilvægt að nálgast fólk af virðingu, skilningi og raunhæfum lausnum. Að hans mati hefur refsistefna í vímuefnamálum gert fólki erfiðara fyrir að snúa aftur inn í samfélagið, og hann telur brýnt að löggjöf verði endurskoðuð með það að markmiði að vikið verði frá refsingum og horft frekar til heilbrigðis- og mannréttindasjónarmiða. Fyrir Sverri snýst skaðaminnkun um að draga úr skaða, styðja fólk til mannsæmandi lífs, auðvelda því að styrkja tengsl sín við samfélagið og efla samkennd og virðingu.

Sverrir kom inn í stjórn samtakanna júní 2025.


Selma Kröyer,
Samfélagsmiðlafulltrúi (hún/she)

Selma byrjaði í sjálfboðastarfi hjá Matthildarsamtökunum í júní 2024. Hún er samfélagsmiðlafulltrúi og er einnig hluti af Matthildarteyminu.  

Selma vinnur í íbúðarkjarna á vegum Reykjavíkurborgar fyrir einstaklinga með geðfatlanir og vímuefnavanda. Hún hefur sérstakan áhuga á mannréttindum og einnig mikinn áhuga á réttindum dýra og vinnur sjálfboðastörf hjá Dýrahjálp og Villiköttum. 

Fyrir Selmu er skaðaminnkun mannréttindi og vill hún taka þátt í að berjast fyrir því að fólk sem notar vímuefni njóti þeirra mannréttinda og heilbrigðisþjónustu sem það eigi rétt á og sé mætt af virðingu og fordómaleysi.

Selma kom inn sem samfélagsmiðlafulltrúi 2024.

Stofnmeðlimir Matthildar

Elín Guðný
Gunnarsdóttir,

MPM

Sigrún Jóhannsdóttir,
lögmaður

Svala Jóhannesdóttir,
Fjölskyldufræðingur
og faghandleiðari