Nalaxone í fangelsum

Naloxone nefúði er bráðalyf gegn ofskömmtun á ópíóíðum. Ef það er gefið tímanlega getur það bjargað mannslífum með því að snúa við öndunarbælingu og öðrum skaðlegum afleiðingum ofskömmtunar.

Samtökin veita reglulega fræðslu til fólks í afplánun á öllum göngum í fangelsum landsins um áhættur ópíóíða, einkenni ofskömmtunar af völdum ópíóíða og notkun á Naloxone nefúða. Fræðslan er aðlöguð að aðstæðum hvers fangelsis og er unnin í samvinnu við Afstöðu og Fangelsismálastofnun. Að lokinni fræðslu er Naloxone nefúði ásamt upplýsingabæklingi settur inn á hvern gang/fangelsi.

Fræðslan sem veitt er:

Matthildarsamtökin og jafningar frá Afstöðu fara inn í fangelsin og veita fræðslu og þjálfun bæði til fólks í afplánun og fangavarða.

Matthildarsamtökin sjá um að fræðslan fari fram í samstarfi við yfirstjórn og starfsfólk fangelsa, en hún er sérsniðin fyrir aðstæður hvers staðar.

Fræðslan inniheldur eftirfarandi:

  • Hvað eru ópíóíðar

  • Helstu áhættur ópíóíða

  • Einkenni ofskömmtunar af völdum ópíóíða

  • Hvernig Naloxone virkar

  • Notkun á Naloxone nefúða

Um verkefnið:

Ísland var fyrsta landið til að dreifa Naloxone í öll fangelsi og er því tímamóta verkefni í öryggismálum. Verkefnið felur í sér að Matthildarsamtökin, í samvinnu við jafninga frá Afstöðu, sjá um að veita fræðslu um áhættur ópíóíða og notkun Naloxone inn á öllum göngum í fangelsum landsins.

Fangelsismálastofnun hefur unnið að þessu með Matthildarsamtökunum og Afstöðu með það að markmiði að auka lífslíkur fólks í afplánun, bæta viðbragðskerfi innan veggja fangelsanna og byggja upp traust og mannúð í umhverfi þar sem vímuefnanotkun getur haft alvarlegar afleiðingar.

Verkefnið er jafnframt mikilvæg forvarnarvinna, þar sem erfitt getur reynst að ná til hluta hópsins utan fangelsa, meðal annars vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða heimilisleysis.

Frá og með júní, 2025 varð Naloxone nefúði aðgengilegur á öllum göngum í fangelsum landsins.


Verkefnastjóri er Svala Jóhannesdóttir:
svala@matthildurskadaminnkun.is